Sunday, March 25, 2012

The Pursuit of Happiness

HolaHolaHolaHola!
Fullt af skemmtilegum hlutum búið að gerast, og þá er ég aðallega að tala um skiptivikuna í Cuenca.
Nokkrum dögum áður en ég hélt til Cuenca kom Zoe (Belgíu) og Mira (Þýskalandi) sem búa í Esmeraldas í heimssókn til Guayaquil til að skoða og heimssækja mig og Sofie. Zoe er skiptinemi en Mira var skiptinemi í Brasilíu en er núna sjálfboðaliði að kenna þýsku í Esmeraldas. Við sýndum þeim það litla sem Guayaquil hefur upp á að bjóða s.s túristastaði. Fórum í bíó, í eðlugarð, á McDonalds (enda ekkert svoleiðis í Esmeraldas) og eitthvað svona skemmtilegt. Það eru skiptar skoðanir á því meðal fólksins hvaða borg er hættulegust í Ecuador; þeir sem eru frá Guayaquil segja að Esmeraldas sé hættulegust en þeir sem eru frá Esmeraldas segja að Guayaquil sé hættulegust. Ég hef ekki heimsótt Esmeralds ennþá þannig ég get ekki dæmt, en Mira var bara þegar við vorum að labba um miðbæinn"VÁ HVAÐ ALLT ER ÖRUGGT HÉRNA, MÉR LÍÐUR SVO VEL, engir karlar að kalla eða blístra á eftir manni" Mér fannnst þetta ekki alveg jafn frábært enda heyrði ég alveg blístrin og köllin en þetta var greinilega ekkert miðað við Esmeraldas úfffff.

Já meðan ég man, íslenskan er ekki að koma fljótandi hérna hjá mér akkurat núna, það koma bara spænsk orð upp í hugann á mér - sem er mjög skrýtið en samt góðs viti.

CUENCA
Ég, Sofie (auðvitað, við erum límdar saman), Jonathan (Þýskalandi), Henry (USA) og Aukusti (snillingurinn frá Finlandi) drógum öll borgina Cuenca til að fara til í skiptivikunni. Gleði, gleði enda eftirsóttasta borgin hjá öllum. Við lögðum af stað í rútu sunnudaginn 26. febrúar. Þetta var einmitt afmælisdagur Monicu, mömmu minnar þannig það var svolið súrt en ég valdi voða fallegt kort handa henni og skrifaði á það og setti mynd af okkur, hún var víst voða ánægð. Mamma sendi henni líka gjafir frá Íslandi sem komu nokkrum dögum seinna en þær gjafir slóu í gegn. Allavegna rútuferðin gekk mjög vel fyrir utan það að áður en við lögðum af stað kom einhver strákur eða maður inn í rútuna og talaði í svona 20 mínútur um það hvað lífið hans væri erfitt og að hann hafi misst handlegginn og hnéið og öxlina og fullt annað.  Röddin hans var svo pirrandi og svo byrjaði hann að sýna okkur allt sem vantaði á líkamann hans og Guð hvað þetta var ógeðslegt - hann var auðvitað að betla. En svo fór hann og við héldum leið okkar til Cuenca. Á rútustöðinni tóku fjölskyldur okkar á móti okkur. Ungur maður tók á móti mér - ég giska á 30 ára en svo við nánari kynni kom bara í ljós að hann var bara 24 ára ungt lamb. Joel hét hann. Hann á heima í huge húsi og inní húsinu er líka veitingastaður sem selur mjög góðan mat! Hann kynnti mig fyrir mömmu sinni og systrum, man bara hvað önnur hét en hún hét Alexandra, hin systirin er flutt út þannig ég sá hana ekki mikið.  Mér líkaði strax vel við mömmuna því hún minnti mig svo á Indu ömmu, ekki leiðum að líkjast. Ég svaf á þriðju hæðinni, og var með hana bara eiginlega alveg fyrir sjálfa mig og herbergið var svo kósý! En Joel keyrði með mig um borgina og sýndi mér svona fallegustu staðina, kirkjur og eitthvað svona. Við fórum líka í snilldar ísbúð þar sem þar sem ístegundirnar brögðuðust eins og áfengi, það var hægt að fá með kampavíns-bragði, mojito bragði, bjór bragði og bara you name it, they had it! Svo um kvöldið fórum við með einhverri vinkonu hans í bíó á Jack and Jill sem er hræðilega fyndin mynd en það fyndnasta var hlátur host-bróður míns hahahaha. Eftir það fórum við á svona útsýnissstað til að sjá hvernig Cuenca liti út að kveldi.  Þar sé ég einhverja ljóshræða stelpu vera að horfa og nei nei er þetta ekki hún Sofie! Gaman að hitta hana með bróður sínum þarna á sama stað. Svo fór ég með bróður mínum og vinkonu hans að borða pizzzu á svona ís/pizza stað,  við vorum ekki búin að vera þar lengi þegar Sofie og bróðir hennar labba inn til að fá sér ís, hahaha það var fyndið. Tilviljanir.
Daginn eftir vaknaði ég snemma á mínum kvarða, þar sem ég er náttúrulega í sumarfríi en morgunmaturinn var borinn fram kl. 8. Ég fékk vægt sjokk þegar systir mín sagði mér klukkan hvað morunmaturinn væri og þá spurði hún "eða fyrr ef þú villt" ég bara "já nei takk, 8 hentar mér vel".  Morgunmaturinn var svakalegur! Alla dagana fékk ég ferskan safa, fulla skál af ávöxtum, brauð, egg, samloku og kaffi. Ég var með svo marga diska fyrir framan mig að ég vissi ekkert hvernig ég ætti að raða þeim, en almáttugur hvað þetta var gott en auðvitað alltof mikið. Það besta við þetta var að fá alla þessa ávexti, þau voru með hillur fullar af ávöxtum og ísskápurinn var fullur líka, ótrúlega gott. Ég held að fólkið í fjöllunum borði bara miklu meira af ávöxtum en fólið á ströndinni. Synd.
Um 10 leytið hittumst við allir skiptinemarnir sem drógum Cuenca við dómkirkjuna og löbbuðum um miðbæinn og skoðuðum kirkjur og söfn í fylgd sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðarnir í Cuenca eru margir og ungir! Ekkkert í líkingu við helvítis M*ry, sjálfboðaliðann og trúnaðarmanninn hérna - ég er búin að gera mér grein fyrir því að M*ry er versta manneskja í Suður Ameríku sem ég hef kynnst - og frábært hún er trúnaðarmaðurinn minn.  Allavegna við fórum á eitthvað índíjánasafn og í einhvern jurtagarð (drepleiðinlegt) og fórum á veitingastað og fengum okkur í gogginn en þessi dagur var alveg mjög góður, svo sögðum við skilið við sjálfboðaliðana og fórum á einhvern bar til að spjalla en síðan komu host systkinin mín að ná í mig.  Ég beið eftir þeim fyrir framan dómkirkjuna með Henry, okkur þótti það frekar öruggur staður þar þó að það var mjög dimmt þarna. Þegar ég settist inní bílinn var host systir mín bara "þú mátt ekki bíða þarna, þarna er alltof dimmt og það er mjög auðvelt að ræna þig þarna" ooops. Ég fór með þeim í verslunarmiðstöðina sem er kölluð mall en það eru tvær í borginni en hin er minni og er kölluð small, hahaha skondið. Alltaf bara eigum við að fara í mall eða small. Fyndið. Síðan skutluðu þau mér heim og ég var ekki lengi að sofna, þau fóru hins vegar út aftur sama kvöld og systir mín var rænd með stórum kjöthníf fyrir framan dómkirkjuna! Svakalegt, hún var að vara mig við þessu. Shit happens.
Daginn eftir, sem sagt á þriðjudeginum - vaknaði ég aftur og fékk morgunmat fyrir 5 manns en tók svo leigubíl niður í mollið og þar hitti ég alla krakkana, plan dagsins var að fara í dýragarð.  Dýragarðurinn var uppí fjallshlíð = labb og drulla.  Þessi dýragarður var ekkert svakalegur sko, þetta var meira bara eins og fjallganga með nokkrum dýrum á leiðinni, sáum sem sagt mjög fá dýr.  Ég, Aukusti og Jonathan nenntum ekki að labba með hópnum og drógumst því aftur úr. Allt í einu sáum við ótrúlega fallegan stað og litlir apar út um allt að hoppa um í trjánum og við vorum bara VÁÁÁÁ, hinir eru að missa af þessu. Við vorum þarna að taka myndir og dást af fegurðinni í svona 20 mínútur þangað til við ákváðum að finna hópinn, hópurinn var ekki langt undan og var einmitt að skoða apa líka. Við sem héldum að við höfðum bara rekist á apanna fyrir tilviljun. lol. Seinna fórum við öll svo og fengum okkur pizzu og settumst svo niður á einhvern bar og það var allt mjög kósý.
Miðvikudagurinn var rólegur, við hittum skiptinemana og fórum á svona Panama hatta safn því Panama hattar eru víst frá Cuenca, Ecuador en heita Panama hattar því efnið er frá Panama ... eða eitthvað álíka. Ég keypti mér allavegana hatt og er mjög ánægð með þau kaup, við löbbuðum um borgina og enduðum svo á Mexíkönskum stað til að borða hádegismat. Eftir það fórum við nokkur í mallið til að drepa tímann en Sofie var svo illt í maganum, hún var alveg að deyja en gat ekki ælt eða neitt þanng hún borðaði ekkert þessa viku og missti 5kg og var náttúrulega í skýjunum með það og talaði ekki um annað (þau eru nú reyndar komin öll aftur á hana sagði hún mér, en það er annað mál). En svo ákvað ég bara að fara heim, fjölskyldan var mjög hissa á því að ég væri komin svona snemma heim en við spjölluðum heillengi, örugglega í svona 3 tíma og borðuðum ávexti. Mjög nice.
Svo kom fimmtudagurinn og þá var planið að fara að Cajas sem eru svona lón uppá fjöllunum og þar á víst landslagið að vera rosalega líkt Íslandi-var ég búin að sjá á myndum. Fimmtudagsmorguninn var ég samt með svo mikinn magaverk að ég ákvað að fara ekki í þessa ferð - var eiginlega bara feigin að hafa ekki farið þar sem þetta var víst hin erfiðasta fjallganga og í svo mikilli hæð að litlu sem engu súrefni var hægt að anda að sér. + Þetta var mjög drullug leið. Og allir skiptinemarnir fengu víst póst um það að þau ættu að taka íþrótta skó og íþrótta föt sem meiga verða skítug með sér til að geta labbað þessar leiðir, en það fengu nátturulega allir þennan póst nema ég. Allavegana hafði host mamma mín svo miklar áhyggjur af mér útaf magaverknum og lét mig drekka eitthvað heitt vatn með jurtagrösum í og það vatn bragðaðist alveg eins og pizza. Svo átti ég að sofna og drekka svo eitthvað blómavatn. Og jújú þetta virkaði alveg, og hún var svo ánægð þegar ég sagði henni að mér liði betur! haha En um kvöldið reif ég mig upp og við fórum öll á skemmtistað, við áttum að mæta á einhvern bar kl. 9 og bróðir hennar Sofie ætlaði að ná í mig og hann kom klukkan 11. Ég var bara já æðislegt! Hérna er fólk að fara heim til sín klukkan svona 2 - 3, ekki eins og á Íslandi sem sagt. Þannig við komum alltof seint. Aukusti, strákurinn frá Finnlandi var flottur á því með romm flösku í einum vasanum og vodka flösku í hinum. Við fórum á einhvern ótrúlega spes skemmtistað þar sem stelpur fóru frítt inn en strákar þurftu að borga, en við þurftum að fara inn nokkur saman og fá svona kort, svona reikningskort sem við máttum ekki týna. Þannig ég geymdi kortið, en svo vildi einn strákur fá sér frískt loft þannig ég lét hann fá kortið, en hann komst ekki út til að fá sér frískt loft því við þurfum alltaf öll að fara saman út fólkið á kortinu (wtf). En þessi strákur var svo fullur þannig hann tíndi kortinu. Svo vildum við fara heim ég og Sofie þannig við ætluðum bara að labba út en nei þá var það ekki hægt þannig strákarnir fóru og fengu einhverja svona kvittun og á henni stóð Stelpur: 0 Strákar: 2 og við bara já fínt, þetta er örugglega rétt þar sem við fórum frítt inn. En nei það virkaði ekki þannig við komumst ekki út og ég var alveg að fá innilokunarkennd þarna, hræðilegt að komast ekki út. En loksins komumst við út og allt var í lagi. 
Daginn eftir voru allir svo þunnir og þreyttir þannig við héldum okkur ekki við plan dagsins heldur fórum niðrí bæ á kaffihús og eitthvað svona kósý. -þetta get ég ekkert gert í Guayaquil, labbað bara um og farið á kaffihús, þannig þetta var góð tilbreyting. En áður en ég hélt út fór ég í sturtu sem væri nú ekki frásögufærandi nema það að í Cuenca er frekar kallt eða svona eins og sumar á Íslandi, alveg kaldir dagar stundum. Og baðherbergið sem ég notaði alltaf var með glugga á en það var engin rúða í glugganum þannig kuldinn kom bara inn, og þar sem það er kallt eru allir með heitt vatn það er bara ekki hægt að fara í sturtu í köldu vatni í svona veðri.  En það kom bara kalt vatn í þessari sturtuferð hjá mér, og að þrífa á sér hárið með svona ísköldu vatni var bara impossible ég var byrjuð að titra og fá brainfreeze og allt. Ég var handviss um að ég væri komin með heilahimnubólgu eftir þetta, og allan þennan dag var mér ísskalt. Sofie dró mig samt út um kvöldið. Host bróðir hennar kom og náði í mig með vini sínum; bróðir hennar var alltaf að reyna að koma mér saman við einhverja vini sína en ég bara nei takk. Þetta kvöld fórum við á annan skemmtistað, við komum svoldið snemma og loftkælingin var bara í botni við vorum öll bara í jökkunum okkar að frjósa en þetta lagaðist nú þegar leið á kvöldið. Ég dansaði svo mikið, ég hef aldrei skemmt mér eins vel, mjög gaman.
Laugardagurinn rann svo upp og ég var svo heppin að bróðir minn nennti að fara með mig að skoða IngaPirca, stærstu Inca rústir í Ecuador. Ég mátti bjóða Sofie með. IngaPirca var AWESOME! Vá, og við vorum með leiðsögumann og það var æðislegt að heyra söguna á bak við allt þetta. Mjög ángæð með að hafa fengið að fara þangað! Það var alveg tveggja klukkutíma keyrsla þangað og tilbaka en Joel keyrði á 140 þannig þetta gekk hratt fyrir sig. á leiðinni heim fórum við í GoKart sem var snilld. Ég setti á mig hjálm en fattaði ekki hvernig hann virkaði fyrr en ég sá að það var svona stórt gat fyrir augun og nef, frekar vandræðalegt en guð hvað Joel og vinur hans hlógu að mér. hahahah
Svo þurfti Joel að fara að læra fyrir eitthvað próf þannig hann skutlaði mér og Sofie niðrí bæ og við fórum á veitingahús og fengum okkur steik! Æðislegt að fá almennilegt kjöt og sósu! Svo röltum við um og fengum okkur kaffi annarstaðar og svo þegar við ætluðum að ná í taxa sáum við Henry, Jonathan og Aukusti þannig við fórum á bar með þeim en héldum svo frekar snemma heim en þeir fóru víst á eitthvað svakalegasta fyllerí ævi þeirra. Þegar ég kom heim voru allir að vinna því veitingastaðurinn var náttúrulega opinn og Alex, systir mín sér um ávextina og eftirréttina þannig ég fékk huge skál af ávöxtum og fékk svo að prófa súkkulaði kökuna hennar, mjööööööög gott! 
Sunnudagurinn var dagur heimfarar, ég borðaði morgunmat en fór svo með Alex og hinni systurinni niðrí bæ þar sem það var kvennahlaup eða eitthvað svoleiðs, svo fór ég heim að pakka en svo kölluðu þau á mig og sögðu að hádegismaturinn væri tilbúinn ég bara ... vá ég var að borða morgunmat! Það var ekkert annað en NAGGRÍS í matinn. Eitt orð: OJ! Það ógeðslegasta sem ég hef smakkað, bragðið á kjötinu var bara viðbjóður. Þau átu þetta öll með bestu list enda er þetta víst sparimatur, oj.  Svo var komið að kveðjustund, ég fékk alveg tár í augun þegar ég kvaddi mömmuna og þegar við vorum á leiðinni á rútustöðina en svo var ég bara "Stefania taktu þig saman í andlitnu, þú varst hjá þeim í viku" En þau voru svo æðisleg og sögðu að ég mætti alltaf koma í heimssókn og skrifuðu niður heimilisfangið fyrir mig og sögðust hlakka til að sjá mig aftur. Gaman að heyra það! Þau voru líka alltaf bara, viltu ekki búa hérna í Cuenca? "Þú verður að finna þér einhvern strák til að giftast svo þú getur búið hérna", haha. En Guð hvernig mun mér eiginlega ganga að kveðja Monicu og Ramiro þegar ég fer heim, úffffffff!
Það var svoldið skrýtið að koma heim og fara aftur í "rútínuna" en samt svo þæginlegt að koma heim til Monicu og Ramiro þar sem ég þekki allt og svona.
Þá er ég búin að segja frá ferðinni til Cuenca, Cuenca er svo falleg borg, væri ekkert á móti því að flytja þangað í smá tíma einhverntímann, ég sá það samt alveg hvað ég var orðin vön hitanum, mér var alltaf kallt þarna.

Y que más ? Ég er bara byrjuð að hlakka til að byrja í skólanum, sem er í byrjun apríl. Samt sjúklega nice að vera í fríi og sofa út og geta farið í sundlaugina og svona, líka svo nice því Monica vinnur heima núna þannig við borðum alltaf hádegismat saman og spjöllum heillengi, það er mjög kósý! Hún sagði mér líka í fyrradag eða eitthvað hvað hún og Ramiro væru ánægð með mig og hvað þau væru heppin að hafa mig sem skiptinema og að ég gangi svo vel um herbergið og láti alltaf vita hvar ég er. Ég hef aldrei verið jafn ánægð með hrós. Varðandi fjölskyldumál og líðan hérna í Ecuador akkurat núna þá finnst mér stundum bara eins og að ég svífi um á einhverju skýji, allt er svo gott! 

Svo erum ég og Sofie byrjaðar að eyða miklum tíma með Michi, stelpu úr skólanum. Hún er rosalega nice og elskar menningar og allt svona þannig henni finnst gaman að vera með okkur. Því hérna er erfitt fyrir okkur að eignast vinkonur, þær eru allar frekar öfundsjúkar og gefa okkur illt augnarráð. En Michi er frekar frábær og hún er dugleg að bjóða okkur með sér að hitta vini sína. Um daginn fórum við í mallið til að hitta hana, hún var með einhverjum vini sínum og hún kynnti mig fyrir honum og augun hans stækkuðu um helming og hann bara "Þú ert frá Íslandi ekki satt????" og ég bara vá hvernig veit hann það? En þá hafði Michi sagt honum það og hann er svo áhugasamur því systir hans bjó á Íslandi í eitt ár með manninum sínum sem er frá Mexíkó fyrir einhverjum 2 árum eða eitthvað. Hann, heitir Charlie, Charlie var búinn að segja systur sinni að Michi ætti vinkonu sem væri íslensk og systir hans bara "Ég vil hitta hana! Bjóddu henni heim! Bjóddu henni í mat!" en hann þekkti mig ekkert þannig hann gat það ekkert hahah. Ég talaði inná talhólf systur hans á íslensku og henni þótti víst voða vænt um það.  Þennan sama dag hittum við annan vin Michi og hann bauð okkur að fara út að borða nokkrum dögum seinna. Við gerðum það, fórum á Chili's ég, Sofie, Michi, Jean Pierre (vinur Michi sem ég hafði hitt nokkrum sinnum áður) og Charlie. Þegar við vorum að labba á veitingastaðinn hitti ég systur hans Charlie og mann hennar og það var rosalega gaman að hitta þau! Við töluðum saman á spænsku en það er greinilegt að þau elska Ísland og voru bara "kanntu að búa til kleinur?" ég bara nei sorry en maðurinn kann víst að búa til kjötsúpu, sem er uppáháldið þeirra og þau ætla að bjóða okkur einhvern tímann í mat, það verður snilld. Allavegana á veitingastaðnum mætti einn strákur, Enrique sem ég hafði líka hitt áður, hann heilsaði okkur öllum og svo settist hann fyrir hliðina á mér. Hann var í svona grænum bol á sem stóð á "Irish" hann bara "Já Stefanía, ég fór í þennan bol fyrir þig en svo á leiðinni hingað fattaði ég að þú ert frá Íslandi, ekki í Írlandi" Þið getið ímyndað ykkur hvað mér fannst þetta skondið. 
Eftir matinn fórum við heim til Michi, í sundlaugar húsið hennar og héldum svona smá mini party, það var snilld. Þetta var allt í þarseinustu viku. En svo á þriðjudaginn 13. mars spurði Michi okkur hvort við vildum koma og borða pizzu með vinum hennar og við bara já fun. Við fórum heim til einhverrar vinkonu hennar og svo á flugvöllinn...ég bara hvað erum við að gera hérna á flugvellinum, þá voru allir vinirnir að fara að kveðja Charlie því hann var að fara til Argentínu í mánuð. Ég og Sofie vorum þarna umkring nánustu ættingjum hans og vinum eins og illa gerðir hlutir, allir geggjað leiðir yfir því að hann væri að fara og við bara jááá einmitt. Mig langaði bara að segja "Slökum á, hann er bara að fara í mánuð, ÉG FÓR Í 10 mánuði!!" en ég ákvað að sleppa öllu drama. En krakkarnir voru mjög skemmtilegir en þetta var samt skemmtilega skrýtið!  Eftir þetta fórum við með Michi og vinkonunni sem heitir Melissa að borða pizzu og það var bara mjög gaman! 
Fimmtudaginn 15. mars var Michi búin að bjóða mér og Sofie í eitthvað party hjá vini vinar sínum. Við vorum samferða Michi í partyið og okkur brá svakalega þegar við löbbuðum inn. Þetta var í lítilli íbúð sem var full af karlmönnum og reyk, það voru engar stelpur.  Michi fór að tala við vin sinn, en henni leist ekkert á þetta. Sofie bara "Ég er hrædd" en einhverra hluta vegna var ég bara nei, nei þetta er í lagi (skrýtið, þar sem ég er ekki chilluð manneskja) en svo settumst við niður þar hjá þeim og ég byrjaði svona að horfa í kringum mig. Ég sá bara karlmenn með alltof mikið hárgel útum allt, í öllum herbergum og alltof stóran lás á hurðinni. Þannig ég bara "ok sofie ég er að freaka út". Við héldum uppi kurteisislegum samræðum í smá stund en þegar við vorum spurðar sögðumst við eiga kærasta í heimalöndunum okkar og þá leit einn á mig og spurði "ertu honum trú eða ótrú?" og glotti svo hrottalega þannig við fórum :) Sögðumst vera svangar þannig við fórum á McDonalds. Michi var miður sín því hún hefði ekkert farið með okkur þangað ef hún vissi hvernig þetta yrði. En kvöldið var bara gott eftir þetta, við fórum á diskótek en það var leiðinlegt þannig við fórum á annað diskótek þar sem við hittum Inu, Hönnu og Ali - skiptinema líka og skemmtum okkur konunglega þetta kvöld. Við kynntumst strákum úr Samborondon (hverfinu þar sem við búum) og þeir skutluðu okkur heim -ég veit mamma, það var ekki alveg það skynsamlegasta en þeir voru rosalega skemmtilegir allir saman.  Þeir töluðu allir næstum fullkomna ensku enda kom það í ljós að flestir þeirra höfðu farið á skólastyrk til Bandaríkjanna. Og þeir buðu okkur uppá McDonalds en  ég og Sofie afþökkuðum pent því það væri þá í þriðja skiptið sem við borðuðum Macdonalds þennan dag - kannski aðeins of mikið af því góða :)
Daginn eftir chillaði ég bara heima með Monicu en fór út um kvöldið á einhvern svona bar, það var fínt nema ÞAÐ VAR SVO MIKIL RIGNING! Það sást ekkert útúm bílrúðuna og að stíga út úr bílnum þurfti ég að stíga í sundlaug fyrst þannig ég fór svona 5 sinnum í sturtu þetta kvöld.
Morguninn eftir, Laugardaginn þurfti ég að vakna fyrir allar aldir eða það er að segja klukkan 7 og hafa mig til fyrir ströndina. Michi bauð mér með sér og fjölskyldunni sinni. Við vorum sem sagt ég, Michi, ein vinkona Michi, mamma hennar, frænka hennar og 2 bræður öll í einum bíl. Við fórum á svona bát eða snekkju þar sem við gátum legið í sólbaði, synt í sjónum eða farið á jet ski. Guð hvað það var gaman. Og sjórinn er svo heitur! Snilld að synda í honum. Við vorum "úti á hafi" þangað til klukkan svona 8 en þá  fórum við uppí íbúðina sem pabbi hennar Michi á í Salinas (litla Benidorm) og fórum í sturtu og gerðum okkur til. Önnur vinkona Michi bættist við og þær voru rosalega skemmtilegar. Við borðuðum Taco öll saman og fórum svo á skemmtistað.  Þessi skemmtistaður var HUGE og ég hitti 3 stráka úr skólanum sem var gaman en fjörið stóð ekki yfir lengi þar sem mamma Michi hringdi allt í einu brjáluð í hana, því þá mátti hún víst ekki fara út þannig við þurftum að fara heim sem voru góðar fréttir fyrir mig þar sem ég fékk hræðilega í magann af þessum helvítis Taco-um. Ég lagðist uppí og sofnaði á 30 sekúndum en pabbi hennar Michi veiktist líka og svaf víst ekkert.  Daginn eftir löbbuðum við um Salinas, fórum og keyptum okkur pizzu og hittum einhverja vini Michi og spiluðum ping pong en svo um kvöldið var haldið heim á leið. Það fannst öllum í þessari ferð awesome að ég væri frá Íslandi og Norðurljósin voru aðalumræðuefnið.


Þar sem Cuenca er svo æðisleg borg og við skemmtum okkur svo vel þarna í skiptivikunni vorum við allir skiptinemarnir mjög spenntir þegar við fréttum af því að þar ættu að vera huge tónleikar. En þar sem við megum ekki ferðast eða gera neitt án AFS leyfis og AFS er duglegt að senda fólk heim var ég áhyggjufull að fara án leyfi.  Ég var líka áhyggjufull að fara aftur til fjölskyldunnar sem ég var hjá í skiptivikunni, þó að þau sögðu að ég væri alltaf velkominn þá veit ég að Joel, bróðir minn er mjög upptekinn og ég mundi þurfa að taka herbergið af honum sem mér var illa við. En þá kom engillinn, hún Monica host mamma mín og bauðst til þess að fara með mér.  Fyrir marga aðra skiptinema gæti þetta verið þeirra versta martröð; að host foreldri komi með í ferð en Monica er "super chevere" eins og við segjum hérna í Ecuador eða svaka svöl þannig þetta var því bara gaman. Þriðjudaginn 20. mars fórum við fullt af krökkum úr Guayaquil saman í rútu en svo splittuðumst við upp, hver fór á sitt hótel eða þar sem hann ætlaði að gista.  Ég og Monica deildum hótel herbergi saman á krúttlegu hóteli í miðbæ Cuenca, við komum okkur fyrir og löbbuðum svo smá um bæinn þangað til að við fundum veitingastað til að borða á. Sofie kom svo seinna og borðaði með okkur en svo hélt Monica heim á hótel og ég og Sofie fórum í mallið til að kaupa miða á tónleikanna. Við vorum reyndar löngu búin að biðja bróður hennar Sofie um að kaupa miða handa okkur og hann bara já ekkert mál og svo þegar við vorum mættar á staðinn var hann bara "æ sorry ég átti ekki pening" Svo típiskt hérna í Ecuador. En eftir það löbbuðum við meira um bæinn og fengum okkur kaffi og vorum bara eitthvað að chilla, svo sáum við 2 skiptinema labba fram hjá kaffihúsinu en þeir búa allt annarstaðar í Ecuador þannig það var gaman að hitta þá. Þeir joinuðu okkur og við fórum á einhvern bar og svo komu fleiri þangað til að hitta okkur en svo hittumst við allir skiptinemarnir á öðrum bar þar sem var dansað og fullt skemmtilegt. Seinna var farið á arabískan stað og fengið sér shawarma sem er arabískur matur, mjög góður og reykt pípu.
Tónleikarnir voru daginn eftir, ég og Monica vöknuðum og fengum okkur morgunmat á hotelinu enda var hann innifalinn en svo stússtuðumst við eitthvað, löbbuðum um bæinn, leituðum að einhverju heilögu víni fyrir Ramiro, skoðuðum eitthvað nunnu klaustur og nunnu safn, fórum í svölu ísbúðina þar sem ísinn er seldur með áfengisbragði. Ég fór síðan á hótel og fór í sturtu og svona en svo fengum við okkur að borða og svo hitti ég hina skiptinemana og við héldum á tónleikanna.  Ég veit ekki afhverju en ég hélt að tónleikarnir væru innan hús en það var sem sagt ekki þannig og það rignir alltaf á fullu í Cuenca þannig við keyptum okkur svona flottar regnsláir. Allir skiptinemarnir keyptu sér ódýrustu miðana á þessa tónleika, þannig við vorum á frekar ömurlegum stað og sáum lítið. Þetta var á svona leikvangi og svæðið var girt af með stórri girðingu en allt í einu opnaðist lítil hurð á "grasið" sem sagt miklu nær sviðinu og auðvitað stukku allir af stað til þess að komast á betra svæðið.  Allir skiptinemarnir hlupu líka af stað og ég bara "þetta á eftir að enda illa" en ég ætlaði ekki að vera ein eftir á ódýra svæðinu þannig ég hljóp líka. Guð minn almáttugur, þetta var hræðilegt, það voru allir að ýta öllum og fólk datt, og fólk labbaði yfir annað fólk ég hrasaði um einhverja manneskju en náði að halda mér í en Sofie varð undir fólkinu, þetta var ekki gaman en loksins losnuðum við út úr þessari kássu. Og þá tók við að klifra yfir fullt af girðingum, án djóks mér leið eins og Mexíkana að reyna að komast yfir landamærin yfir til Bandaríkjanna. Buxur hjá sumum rifnuðu og sumar stelpurnar voru grátandi en svo á endanum vorum við öll komin saman miklu nær sviðinnu og allt rosa gaman. Tónleikarnir voru geggjaðir, þetta voru tvær hljómsveitir; Calle 13 sem er rosalega fræg hljómsveit meðal ungs fólks í Suður Ameríku, lögin þeirra eru um suður amerískan raunveruleika og erum með miklum takti í en Manuchao var hin hljómsveitin sem er með aðeins hressari lög og hélt uppi frábærri stemmningu. Ég dansaði svo mikið að ég var að deyja úr harðsperrum daginn eftir - hahaha og reyndar líka með fullt af marblettum. Tónleikarnir samt ætluðu aldrei að taka enda, Manuchao þakkaði svona 5 sinnum fyrir sig og fór af sviðinu og kom svo aftur en við fórum og vorum svo svöng þannig við ætluðum að fá okkkur eitthvað arabískt en staðurinn var svo leiðinlegur við okkur og gaf okkur aldrei matinn okkar þannig ég fór svöng að sofa. En samt frábært kvöld. Ég og Monica héldum svo heim á fimmtudaginn í rútu eftir æðislega ferð til Cuenca.
Helgin er bara búin að vera rosalega róleg, í dag er ég reyndar búin að vera veik, með kvef og hita held að það sé vegna hitamunarins á Cuenca og Guayaquil.


P.S Gleymdi að segja ykkur að þegar ég fór á ströndina um daginn þá sagði 10 ára "frænka mín" við mig, sem hefur hitt mig margoft "Stefanía þú ert með sand í andlitinu" ég bara ó og reyndi eitthvað að taka sandinn af en hún "bara nei hann er þarna ennþá" og þá alltí einu heyrðist í Monicu "Romina, viltu hætta þessu, þetta eru freknur!!!!!" ég bara lol.
P.S.S Var að borða kvöldmat með Monicu áðan og við vorum eitthvað að tala um að fólk sem fari sem skiptinemi fitnar alltaf og eitthvað svona og þá sagði hún "Mér finnst þú ekki hafa fitnað en ég tek samt eftir því að kinnarnar þínar hafa stækkað frá því að þú komst" hahaha ég þarf ekki á stærri kinnum að halda.  Ég mun koma heim með stærri kinnar en Hendrik sæti.
P.S.S.S Gleymdi líka að segja að ég og Sofie buðum Monicu út að borða á voða fínan stað í tilefni afmælisins hennar og ég held að hún hafi bara verið rosalega ánægð með það, Ramiro kom svo og joinaði okkur, honum leið eitthvað illa yfir því þar sem þetta átti að vera stelpu kvöld en hann kom með rósir handa okkur sem var krúttlegt - við buðum honum auðvitað bara líka :) gaman að gera eitthvað fyrir þau líka.


En jæja, ég lifi sem sagt ljúfa lífinu hérna í Ecuador, mikið sakn heim en langar samt ekki að þetta ævintýri taki enda. En er staðráðin í því að ég ætla njóta lífsins míns hérna í botn 
þangað til næst ... 
-Stefanía Sjöfn

3 comments:

  1. Þú ert svo mikill ritgerðar SNILLI! Svo gaman að fylgjast með þér. Ég er ekki að átta mig á því hvernig þú mannst öll þess nöfn á þessu fólki sem þú ert að kynnast. C.a 5 nýjar manneskjur á dag, díses kræst!! Og mest LOL í heimi með IRISH gaurinn, hahaha!
    Njóttu þín!!
    xxx

    ReplyDelete
  2. Hildur Pildur lol hehehMarch 26, 2012 at 9:16 AM

    ertu að verða einhver villingur stefanía :O ? reykja pípu og læti og deyja úr þynnku ..það er bara allt að ske haha

    ReplyDelete
  3. Hahaha ég reykti ekki pípuna og var auðvitað ekki sú sem var þunn, engar áhyggjur ég er ennþá sami engillinn :D

    ReplyDelete