Sunday, October 16, 2011

MI VIDA LOCA

Jæja nú ligg ég uppí rúmi og það eru strákar fyrir utan að kasta steinum í gluggann minn. Það þýðir að þeir vilja fá mig út en sorry ég nenni ekki. Fyrst þegar þeir köstuðu þessum steinum hélt ég að það væri komin haglél... nei nei ekki svo gott.  Allt í einu núna finn ég suður súkkulaði lykt ... veit ekki alveg hvernig stendur á þessu, ég held að ég sé að ímynda mér þetta.

Ýmislegt sem hefur drifið á daga mína:
  • HIRING A HITMAN Um daginn þegar ég var á leiðinni heim með Sofie sáum við að fullt af fólki var komið saman á gatnamótum. Þegar við keyrðum framhjá sá ég að það lá dauður maður á jörðinni, hann hefur örugglega verið rændur og skotinn ... eða verið keyrt á hann. Ég nefndi þetta við host foreldra mína og þeim fannst þetta nú ekkert svakalega merkilegt og sögðu mér hvað það kostaði til að ráða mann til að drepa einhvern, kostar ekki meira en 10.000kr!! ... Eins gott að ég eignist ekki óvini hérna. Það er svo ekkert hægt að kæra þetta til löggunar eða neitt, öllum er alveg sama þótt einhver var skotinn. Svakalegt.
  • HIDE AND SEEK Seinasta sunnudag bauð upprunarlega host fjölskyldan hennar Sofie (sem hún af einhverjum ástæðum má ekki búa hjá samkvæmt AFS) okkur í hádegismat. Við fórum í mall hérna rétt hjá á voða nice veitingastað sem heitir Chili's. Monica (host mamma mín) bauðst til að skutla okkur þar sem hún þurfti að stússast eitthvað í mallinu.  Fjölskyldan sem Sofie er hjá núna er búin að banna henni að hitta þetta fólk, hún veit ekkert af hverju. Þannig við sögðum Monicu að við værum að fara að hitta vini úr skólanum. Monica og host mamma hennar Sofie eru svo oft að hringjast á þannig við vildum ekki segja Monicu hverja við værum að fara að hitta ef hún myndi svo segja mömmu Sofie það.  Við borðuðum með þeim, Beatriz (mömmunni) og syni hennar Christian (29 ára læknir, hagar sér eins og 12 ára) og það var bara virkilega gaman. Beatriz talar enga ensku þannig það var gaman að reyna á spænskuna en Christan hjálpaði okkur að þýða líka.  Þau fengu sér einhverjar svaka steikur en við létum kjúklinga samloku nægja, Beatriz endaði á því að bjóða okkur, okkur til mikillar gleði.  Hún bauð okkur svo far heim en hún þurfti fyrst að fara að verzla í matinn og við bara ekkert mál og fórum með henni. Við fengum að velja okkkur súkkulaði stykki og ég veit ekki hvað og hvað.  Ég var alltaf að hugsa "Guð ég vona að Monica ákveður ekki að verzla í matinn í þessari búð núna". (afþví hún verzlar alltaf í matinn á sunnudögum) Væri mjög slæmt ef hosta mamma mín myndi sjá mig verzla í matinn með einhverju random fólki. Allavegana þegar við vorum í klósettpappírs deildinni sé ég einhverja frekar "stóra konu" útundan mér en pæli ekkert frekar í því, svo lít ég aftur upp og þá er þetta host mamma mín að verzla!!!! Hún var mjög einbeitt og sá mig ekki, þó að ég væri bara 2 metrum frá henni. Ég hvíslaði til Sofie og hún bara hvað, hvað ? Og sá ekki neitt, og ég bara "look who's there!!" Monica labbaði áfram og var komin fram hjá okkur og þá missti Sofie út úr sér; Hi Monica. Og ég bara fuuuuuuuuuuuuuu. En sem betur fer hélt Monica bara að við værum með vinum okkar, og ég bara "já, þeir eru hérna einhverstaðar" Allavegana eftir þetta þá var Monica alltaf skrefinu á eftir Beatriz þannig ég og Sofie fórum í feluleik í kringum búðina til að rekast ekki á Monicu aftur, og það var erfitt.  Við höfðum lúmskt gaman að þessu þó að það hefði alls ekki verið gaman ef Monica hefði fattað að við vorum þarna með Beatriz, fóstur fjölskyldan hennar Sofie hefði orðið brjáluð. En svo fórum við með Beatriz heim og hún á heima í svaka flottu húsi en svo skutlaði Christian okkur heim til Sofie og ef ég man rétt rotuðumst við báðar og vöknuðum 2 klukkutímum seinna.
  • SYSTUR Sofie, belgíska/kanadíska vinkona mín er flutt tímabundið til fjölskyldunnar minnar.  Ástæðan er sú að hún er að skipta um fjölskyldu, fjölskyldan sem hún bjó hjá var ekkert sérstaklega góð og hún var mjög óhamingjusöm þar ... ég mundi líka vera það ef ég fengi aldrei neitt að borða (og auðvitað fleiri vandamál). Þannig hún verður hjá okkur þangað til að búið er að finna nýja fjölskyldu fyrir hana, við vitum ekkert hvað það gæti tekið langan tíma, kannski eina viku eða þrjár.  Við erum báðar í litla, pínulitla herberginu mínu sem er ekki alveg að höndla þetta ástand. Ég skil ekki alveg útaf hverju Sofie sefur ekki í herbergi afans, þar afinn sem sefur bara eina nótt hérna 3 vikur í mánuði, eða við báðar þar. Þar sem herbergi afans er miklu stærra en mitt. En þetta er samt fínt, dót út um allt en þetta er bara tímabundið. Gaman að hafa félagsskap, jafnvel þó að við vorum eiginlega alltaf saman áður. Eina skilyrðið mitt er að hún hlusti á tónlistina sína í heyrnartólum... tónlistarsmekkurinn okkar er mjög ólíkur þannig þetta er besta lausnin.  En núna er ég búin að eignast systurina sem ég átti aldrei.
  • MIKILVÆGI TRÚAR Ég áleit sjálfa mig frekar trúaða áður en ég kom hingað en núna finnst mér það vera að breytast. Hérna eru flest allir kaþólskir og frekar trúaðir.  Bekkjarsystur mínar eyða laugardagskvöldum í kirkjunni, og sumar fara í kirkjuna alla vikudaga nema einhvern einn dag. Crazy. Flest allir sem ég þekki hafa á einhverjum tímapunkti spurt mig "Þú ert kaþólsk ekki satt?" Og ég veld þeim alltaf vonbrigðum með svarinu "Nei, ég er Lúthersk". Þau vita náttúrulega ekkert hvað það er.  En ég segi þeim að ég trúi á Guð, sama Guð og þau og þá eru allir ánægðir.  Um daginn byrjaði nýr kennari í skólanum, hún kennir okkur Filosofia og eitthvað eitt annað sem ég veit ekki hvað er. Hún heitir Gigiola eða eitthvað -agalegt nafn en hún er kölluð Gigi og hún er ekki mikið eldri en 26 ára greyið, ný útskrifuð skildist mér. Krakkarnir í bekknum mínum gjörsamlega átu hana í fyrsta tímanum okkar, þau hlustuðu ekkert á hana og allt var gjörsamlega brjálað, skólatöskur voru fljúgandi um loftið og allir að berja hvorn annan. Í öllum þessum hamagang sem hún réði ekkert við, byrjaði hún að spurja mig hvaða trúar ég væri. Ég horfði bara á hana með stórum augum, er þetta virkilega mesta áhyggjuefnið þitt þessa stundina ?!? Foreldrar mínir eru samt frekar trúarlega afslappaðir, fara bara í kirkju á hátíðum og svona, host pabbi minn signar sig alltaf áður en hann keyrir af stað og Biblían stendur á einhverjum sér standi í stofunni opin á blaðsíðu 523 og hefur verið þannig frá því að ég kom.
  • SKÓLALÍF Lífið í skólanum er nokkuð ljúft miðað við fyrri reynslu (Verzló) verð ég að viðurkenna.  Kennararnir ætlast ekki til neins af mér ... sem er fínt, ég er búin að taka eitt próf, sögupróf og fékk 6,5. Ef kennararnir skrifa eitthvað á töfluna glósa ég það yfirleitt niður, en kennarnir eru svo oft með upplestra og glætan að ég geti skrifað það niður þannig þá finn ég mér yfirleitt bara eitthvað betra að gera. ...stundum sofna ég, það er svo þreytandi að hlusta á spænsku allan liðlangan daginn að ég dotta bara á borðið mitt. Í skólanum á ég fullt af kærustum, "þú ert kærastan mín, ekki satt?!?!" er setning sem ég fæ oft að heyra. En ég hef lúmskt gaman að þessu.  Á þriðjudögum og fimmtudögum eru íþróttatímar eftir skóla sem ég og Sofie gerum aldrei neitt í en yfirleitt safnast nokkir krakkar í kringum okkur og Júlían (krúttbolla sem er yfir sig ástfanginn af mér) spilar á gítar og tileinkar mér lögin sín - skemmtilega vandræðalegt en hann má eiga það að hann er drullu góður að spila og syngja.  Júlían er með vinkonu minni í bekk og hann (að hennar sögn) er alltaf talandi um hvað hann er hrifinn af mér og allt það, ég sagði honum um daginn að mér fyndist hann hafa fallegt bros og hann bara "Þetta er besti dagur lífs míns" Krúttlegt!! Að öðru: Um daginn fékk ég magaverk í stærðfræði tíma þannig ég lagðist fram á borðið mitt, og ein stelpan spurði mig hvað var að og ég sagði henni það. Neinei hún öskrar bara á kennarann "STEFANIA ER MEÐ MAGAVERK VIÐ VERÐUM AÐ NÁ Í TE HANDA HENNI!!" ég bara "uss nei, skiptir engu, ég drekk ekki einu sinni te!!" og allir voru bara "Oh my God, afhverju er hún með magaverk? Hvað borðaði hún? Er hún búin að fara til læknis??!" Stelpan dró mig svo út úr tíma að leita af einhverju sérstöku Manzanilla plöntu te, mjög mikilvægt að ég fengi þessa tegund af tei. Eftir að hafa tekið góðan göngutúr í kringum skólann fundum við loksins þetta plöntu te og ég er ekki frá því að þetta ógeð hafi hjálpað ... samt alltof mikið drama fyrir minn smekk.  Svo er einn strákur í bekknum mínum sem heitir Móses og annar sem heitir Nelio, þeir eru svakalega sérstakir og fyndir. Einu sinni spurði Nelio mig hvaða störnumerki ég væri og ég sagði að ég væri vog og hann er líka vog, svo spurði ég Móses og hann vissi ekki hvaða stjörnumerki hann væri. Ég bara hvernig geturu ekki vitað það? hvenær áttu afmæli? Þá útskýrði hann fyrir mér að þegar hann var smábarn var hann fundinn í kæjak í  einhverri á! Ég náttúrulega trúði allri þessari vitleysu, þangað til tvem dögum seinna þá var mér sagt að þetta væri Biblíu djók. Slæmt. Skólafélagarnir mínir eru byrjaðir að hrósa mér fyrir spænskuna, þeim finnst mér vera að fara fram - ég vona að það sé rétt hjá þeim! :D 
  • DISKO Ég fór með Sofie, Henry (USA), Mathilde (FRANCE), Emma (BELGÍU) og host bróður Mathildar og vinum hans á diskotek í gærkvöldi og við skemmtum okkur bara konuglega. Gjörsamlega stútfullur staður og það kostar 15$ fyrir stelpur að fara inn og 20$ fyrir stráka, frekar DÝRT takk. En já það var víst einhver miskilningur í gangi því að hópurinn keypti nokkra vodka pela og allir bara STEFANIA FINLANDIA!! FINLANDIA!! FINLANDIA!! ég bara uuuu what ? þá héldu allir að ég væri frá Finnlandi ekki Islandia. Miskilningar alltaf hreint. Allavegana við hittum 4 stráka úr skólanum, það er svo gaman að hitta fólk úr skólanum. Alltaf þegar ég og Sofie förum eitthvert í mall eða eitthvað þá setjum við okkur alltaf markmið að þekkja einhvern og uppá síðkastið höfum við alltaf þekkt einhvern. Svo gaman!! Gaman að segja frá því að þá mætti Júlían (krúttbollan með gítarinn) á diskótekið og var alls ekki lengur þessi krúttlegi strákur heldur reykjandi og frekar tipsy, klæddur í pimp jakkaföt ég var bara í sjokki.

Heimasæturnar á leið á disco!

P.S Ég gleymdi að segja ykkur, við héldum einhverja svona krabba veislu um daginn og ég held að ég hafi aldrei gert mig að jafn miklu fíbbli. Ég vissi nákvæmlega ekkert hvernig ég átti að borða þetta ógeð. Ég þurfti að sjúga kjötið úr löppunum á þeim en ég bara gat ekki snert þetta, lappirar voru svo hárugar!!. Svo þurfti ég að nota hamar til að brjóta skelina. Ég var í algjöru menningarsjokki, ekki að höndla þetta.  Loksins þegar ég var kominn með ágætt kjöt sá ég að það var hvítlaukssósa á borðinu og þar sem mér finnst hvítlaukur góður ákvað ég bara að smyrja kjötið vel með hvítlaukssósu - þetta var serkasta hvítlaukssósa sem ég hef smakkað ég náði varla andanum! Svo þegar ég hélt að ég væri alveg búin að ná  hvernig ætti að gera þetta þá hjó ég einn fótinn af krabbanum með hamrinum og löppin endaði náttúrulega ofan í einhverri salat skál á borðinu ... ég bara vonaði að enginn myndi fá sér salat á diskinn sinn með einni fallegri krabba löpp. Sofie var ögn skárri en ég enda með reynslu en alltaf þegar hún hamraði í krabban fór allt gumsið á mig, ég fékk löpp í ennið og allan vökvan í augun! Skemmtilega ógeðslegt! En Monica og Ramiro skemmtu sér frábærlega við það að hlægja af mér.
P.S.S Einn strákur bauð mér með sér í brúðkaup í næsta mánuði, ég er að pæla í að fara bara uppá flippið. 

Crazy host foreldar mínir. Monica ávallt með bjór í hönd og hvað er að frétta af þessum hatti?!
Ekki í lagi.
JÆJAAAAAA skóli á morgunn!
HASTA LUEGO!


Sunday, October 2, 2011

Somewhere on your journey don't forget to turn around and enjoy the view

"Here in Ecuador... " veit ekki hvað ég hef heyrt þessa setningu oft hérna.
Núna er ég búin með tvær skólavikur og so far elska ég skólann og krakkarnir eru æðislegir. Stelpurnar eru alveg búnar að taka mig undir sinn verndarvæng. Þær eru rosalega hjálplegar þegar kemur að spænskunni og bekkurinn í heild sinni er mjög lélegur í ensku (sem er gott) þannig það er einungis töluð spænska við mig nema í algjörum neyðartilfellum og miskilningum. Þær eru líka duglegar að skrifa niður latin-amerísk lög sem er must að ég kunni og láta mig fá DVD myndir sem ég verð að horfa á.  Þær sko halda mér upptekni.  Okei það að ég elska skólann er ýkja því að skólinn minn er frekar strangur og skólastjórinn er allstaðar. Samt þegar maður er komin inn í tímana er skólinn langt frá því að vera strangur ... stundum situr kennarinn bara og segir ekki neitt allan tímann og þá tölum við krakkarnir bara saman, stundum mætir kennarinn ekki og þá kasta strákarnir skólatöskunum sínum í hvorn annan og það er yfirleitt bara nokkuð gaman í þessum tímum.  Ég er algjörlega lost í flestum tímum nema stærðfræði og ensku haha ... ég skil flest í tölvutímum sem er svakalegt þar sem í tölvutímum í Verzló er ég aldrei með neitt á tæru! Ég þarf yfirleitt aldrei að gera neina heimavinnu (YAY) nema í ensku, host foreldrum mínum til mikils ama. Á þriðjudögum og fimmtudögum eru íþróttir og þá er ég ekki búin í skólanum fyrr en 15:30 sem er svakalega seint finnst mér, en samt þarf ég ekki að taka þátt í þessum íþróttatímum frekar en ég vil, ég og Sofie sitjum bara og horfum á og spjöllum við hina krakkana sem eru af einhverjum ástæðum ekki að gera neitt.
Það besta og versta við skóladaginn er skólarútan á leiðinni heim úr skólanum. Það tekur mig klukkutíma að komast heim úr skólanum útaf það þarf að skutla öllum krökkunum heim að dyrum og ég er ein af þeim síðustu sem fer út.  Þessi rútuferð er því frekar þreytandi því ég get ekki beðið eftir því að komast heim og úr skólabúningnum en það eru svo fyndnir strákar í þessari rútu að ég er alveg við það að fá six pack (er búin að hlægja svo mikið). Ég og Sofie erum saman í þessari rútu og við fáum yfirleitt alla athyglina. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessari rútuferð, ég þyrfi eiginlega að taka myndavél með mér einn daginn og taka video.  Allavegna þessir strákar eru yngri en við og eru yfir sig ástfangnir af okkur og tala mjög lélega ensku. dæmi: 

  • Your high is so crazy. -Ég held að hann hafi verið að tala um hárið á mér.
  • Hey Handsome! -Ég er ekki strákur :(
  • I love your face 
  • Diarration (niðurgangur) þeir taka bara spænska orðið og bæta -ation við það til að gera það enskt, annað dæmi: Permissation (Permission) Þetta er orðinn svaka húmor að bæta -ation við öll orð. Mikið hlegið.
Gæti talið upp endalaust af fyndnum dæmum...



En já ég ætla ekki að telja upp allt sem ég er búin að gera frá því ég bloggaði seinast heldur ætla ég að segja frá afmælisdeginum mínum. Ég varð 18 ára seinasta miðvikudag, 28. september. Ég vaknaði og gerði mig til fyrir skólann, ég var svoldið stressuð yfir því að foreldrar mínir mundu labba inní herbergið mitt syngjandi en sem betur fer gerðu þau það ekki. Ég var stressuð fyrir að yfirgefa herbergið mitt því ég vissi ekkert hvað biði mín niðri, en það var sem betur fer ekkert hræðilegt heldur bara egg og beikon :) Svo var haldið í skólann og neinei ég mæti alltof seint (mér að kenna) ég ætlaði bara að drífa mig beint í tímann sem ég átti að vera löngu mætt í en nei ég mátti það ekki, mér var fylgt inní einhverja spes stofu fyrir krakka sem mættu of seint. Þetta var svona eins og eftirseta eins og maður sér í bíómyndunum. Guð mér leið eins og svo lélegum nemanda.  En þar var einn bekkjarbróðir minn og sem betur fer svaraði hann öllum spurningunum frá kennaranum sem náði því ekki að hún þurfti að tala hægt við mig, en hann svaraði sem betur fer. Guð mér leið eins og svo miklum hálfvita. Svo þurfti hún endilega að spurja um eftirnafnið mitt og greyið strákurinn gat náttúrulega ekki stafað það þannig hún kom til mín og ég skrifaði það niður. Svo allt í einu varð hún reið og sagði eitthvað á spænsku og benti á munnin á sér. Ég bara hvað??! Ég er ekkert með tyggjó ! (Það er alltaf verið að skamma mig fyrir tyggjó) en þá var hún að meina að ég mátti ekki vera með gloss. Vandró.  Mér líkar ekki vel við þessa konu. En svo bættist annar bekkjarbróðir minn í hópinn og annar strákur og við þurftum öll að skrifa 15 línur um vináttu - svaka verkefni.  Svo byrjaði ókunnugi strákurinn eitthvað að spurja mig hvað ég héti og hvað ég væri gömul og svona. Ég sagðist vera 18 ára í dag og allir bara jeijjj og kossaflensið byrjaði og meira að segja leiðinlega konan muldraði Feliz Cumpleanos. Góð byrjun á deginum.  Svo í næsta tíma á eftir hitti ég bekkinn minn og þau mundu öll eftir afmælinu mínu og sungu öll hástöfum, kysstu mig öll og gáfu mér kort. Afmælissöngurinn hérna hjá nemendunum er miklu betri en á Íslandi, þau virkilega syngja, klappa, stappa fótunum og berja í borðin í takt við lagið.  Ég fékk ófá knús og ófáa kossa frá krökkum í skólanum þennan dag og meira segja frá einum kennara (óþæginlegt).
Eftir skóla fórum ég og Sofie heim til mín og skiptum um föt og fórum í Mall del Sol að hitta nokkra aðra skiptinema. Við vorum 6 saman og borðuðum pizzu og ís, mjög gaman. Rosalega þæginlegt að hitta hina skiptinemana hérna og gleyma því alveg hvar maður er og gleyma því alveg að allir eru að horfa á mann. Seinna um kvöldið fórum við heim og skiptum aftur um föt og fórum út að borða, sem sagt ég, Sofie og host foreldar mínir. Við fórum á Fridays þar sem við fengum okkur að borða, mjög fínt, live tónlist og læti. Þegar við vorum búin að borða fékk ég afmælissöng og afmælisköku. Þessi afmælissöngur frá stelpunum á Fridays ætlaði aldrei að enda og ÉG ÞURFTI AÐ DANSA (awkward dance) og svo réttu þær mér diskinn með kökunni á og ég bara Guð á ég að fara með andlitið í ofan í þessa litlu köku?!? (Það er hefð hérna í Ecuador að afmælisbarnið þarf að fara með andlitið í kökuna, haha) En svo tók ég eftir því að það var kerti á kökunni og ég bara guð á ég samt að fara með andlitið ofaní kökuna!? En þetta stundar panic var óþarfi þar sem enginn ætlaðist til þess að ég fari með andlitið í kökuna, sem betur fer. Ég hlýt samt að hafa litið út eins og hálfviti að stara á þessa litlu köku og setja hana nálægt andlitinu og pæla hvort ég eigi að láta vaða. 
Ó já ég gleymi að segja að daginn áður, þriðjudag hafði bekkurinn minn Pizza veilsu í tilefni afmælis míns og ég þurfti sko ekki að borga fyrir pizzuna! Sætt af þeim.


Ég man ekki hvað ég gerði á fimmtudaginn...greinilega ekkert mjög merkilegt. En á föstudaginn fór ég í skólann og eftir skóla var pool party sem Gina, "vinkona" okkar frá Ecuador bauð okkur í. Það byrjaði klukkan 3 um daginn en ég og Sofie mættum "Fashionably Late" eða um klukkan 5. Við mættum þarna bara tvær og þekktum engann nema Ginu, og við þekkjum hana nú ekki vel þannig við vorum bara frábært þetta á eftir að vera vandræðalegt.  Það fyrsta sem hún segir við okkur er "Stelpur komið þið að dansa" Við bara nei takk! (Dansarnir hérna eru allt örðruvísi en heima, það er ekkert nóg að hreyfa á sér hausinn og hendurnar maður þarf að hreyfa mjaðmirnar á kynþokkafullan hátt). Ég þurfti að beita kröftum til að hún næði ekki að draga mig út á gólfið. En allavegna við kynntumst krökkunum þarna og allir voru voðalega nice og skemmtilegir krakkar. Einn strákurinn sýndi okkur ipodinn sinn og hann var með lagið Little Talks með Of Monsters and Men ég var í sjokki!!  Ekvadorískur strákur  með íslenskt lag á ipodinum sínum! Seinna fórum við í sundlaugina, sumum var hent ofaní í öllum fötunum. En það var virkilega gaman í þessu party. Haha það var svo fyndið einn strákurinn kynnti sig fyrir mér sem Nicolas og ég bara já Herkúles? Hahaha en sem betur fer leiðrétti hann mig. Svo kölluðu strákarnir á annan strák og þeir kölluðu hann Hitler, ég bara guð en hræðilegt nafn, ekki heitir hann þetta? Þeir bara: "Nei, en þetta nafn er skárra en alvöru nafnið hans, hann heitir Gaynar í alvörunni." Ég var náttúrulega í sjokki og svo seinna um kvöldið byrja ég að tala við hann og ég spyr hann hvað hann heitir og hann segir Eynair. Og þá fattaði ég að vinir hans kalla hann bara Gaynar til að gera grín af honum. Ég byrja eitthvað að spurja til um nafnið hans og hann segir að þetta sé norskt víkinganafn. Þá segi ég honum að það sé til mjög svipað íslenskt nafn á Íslandi, Einar og ég skrifa það niður fyrir hann. Og hann bara þetta er nafnið mitt!!! Greyið heitir semsagt Einar en hann sjálfur kann ekki einu sinni að bera það fram, ég reyndi að kenna honum það -gekk ekki. Hann ber það fram Eynair og sagði að mamma sín geri það líka en ég sagði honum að það væri bara einn stór miiiiiiiiiiiiiskilningur og ég væri alveg til í að kenna mömmu hans að bera það fram. En amma Einars sá einhverja víkinga mynd og í enda myndarinnar þegar það var verið að sýna nöfn leikaranna sá hún nafnið Einar og fannst það svona gasalega fallegt ... þetta var pottþétt íslenskur leikari.  Krakkarnir í þessu party voru öðruvísi en hinir sem ég hef kynnst so far, þau voru öll í háskóla, mörg af þeim fóru sem skiptinemar, tala góða ensku og VITA HVAR OG HVAÐ ÍSLAND ER! Sumir voru bara "ohhhh svallt, mig hefur alltaf langað að koma þangað" eða "Oh mig langar svo að sjá norðurljósin" Flestir hérna vita ekki hvað Ísland er, þannig þetta var góð tilbreyting. Seinna um kvöldið fórum við nokkur saman á McDonalds og þar hittum við nokkra krakka úr skólanum, gaman að hitta vini sína einhverstaðar annarstaðar en í skólanum. Ég fékk svona "Vá ég virkilega á heima hérna".

Í gær, Laugardag fórum við með nokkrum bekkjarsystkinum Sofie í Parque Historico sem er ótrúlega flottur garður, dýragarður, plöntugarður og allskonar garður.  Þetta var dásamlegur dagur og krakkarnir voru svo ánægð að sýna okkur allt og útskýra allt. Það var geðveikt, virkilega góður dagur.

Sambúðin með host foreldrum mínum er enginn dans á rósum og þarf ég stundum að anda inn og út og telja upp á tíu og snúa mér í hring til þess að hafa þolinmæði til að hlusta á allt sem host pabbi minn segir. Hann talar rosalega mikið um ómerkilega hluti (enda kennari, haha) og stundum kemst ég bara ekkert að. Honum finnst mjög gaman að útskýra hluti og um daginn útskýrði hann fyrir mér að ég lyti öðruvísi út en allir aðrir í þessu landi, húðliturinn minn er öðruvísi og hárliturinn líka og þess vegna horfði fólk stundum á mig. Ég bara .... "hummm ég hef ekkert tekið eftir þessu, takk fyrir upplýsingar." En þau eru svakalega góð við mig og leyfa Sofie alltaf að koma heim með mér eftir skóla og það er mjög gaman að fara með þeim að versla í matinn enda má ég velja mér allt sem ég vil (ég samt held alveg ró minni mamma, engar áhyggjur)

Spurning með að láta þetta gott heita...
ADIOS 

P.S OMG ÉG FANN FYRIR JARÐSJÁLFTA NÚNA!!! er samt ekki í sjokki útaf ég er íslensk og ætla að halda kúlinu.
P.S.S þetta er annar jarðskjálftinn sem ég finn fyrir hérna - hinn var í skólanum, hélt líka kúlinu þar.